Skrautpuntur
Milium effusum
er stórvaxin en
sjaldgæf grastegund sem er algengari á norðurhelmingi landsins en á
Suðurlandi. Skrautpunturinn vex einkum í blómlendis-brekkum,
kjarri, hraunsprungum eða í grózkulegum hólmum. Hann finnst frá láglendi
upp að 500 m, hæst skráður í Arnarfellsbrekku við Þjórsárver í 600 m, og
Stórahvammi í Austurdal í 570 m.
Skrautpunturinn hefur 8-16 mm breið
blöð. Punturinn er 25-35 sm á lengd, gisinn,
keilulaga. Smáöxin eru sívöl, týtulaus, einblóma, græn eða gulgræn.
Axagnirnar eru hvelfdar, grænar, 2,5-3,5 mm á lengd, þrítauga.
Blómagnirnar eru styttri, gljáandi. Slíðurhimnan er 3-5 mm
á lengd, slitrótt eða odddregin.