Sótstör
Carex atrata
er fremur hávaxin
stör með lotin öx. Hún vex í móum, graslendisbrekkum, giljum og
klettum. Hún er dreifð um allt land frá láglendi upp í 700 m hæð,
en hvergi er mikið af henni, venjulega fáar plöntur í stað og langt á
milli. Hæst er sótstörin skráð við Illviðrahnjúka á Hofsafrétti og við
Kreppu ofan Hvannalinda í 800 m hæð. Eldra nafn á henni er
svarthöfðastör.
Öx sótstarar eru oftast fjögur til
fimm saman, fremur stuttleggjuð, lítið eitt slútandi. Karlblómin eru öll
neðst í efsta axinu. Axhlífarnar eru svartar eða sótrauðar. Hulstrin eru
græn, frænin þrjú. Stráin eru skarpþrístrend, sterkleg neðan til, en
grönn og lítið eitt lotin efst. Blaðsprotar eru kröftugir. Blöðin eru
flöt, með aðeins niðurorpnum röndum, 4-6 mm á breidd.
Sótstörin finnst víða um Evrópu allt vestur til Grænlands.
Hér sjáum við allan líkama sótstarar, mynd frá
árinu 1982.
Nærmynd af öxum sótstarar.