Blóm fjörukálsins standa í
klösum á stöngulendunum, 1,2-1,7 mm í þvermál, fjórdeild.
Krónublöðin eru hvít eða fölfjólublá, 7-10 mm á lengd, ávöl
eða buguð í endann, nöglin mjó. Bikarblöðin eru egglaga eða sporbaugótt,
gulleit með glærum himnufaldi, um 3 mm á lengd. Fræflar eru sex, ein
löng og mjó fræva. Aldinin verða fullþroskuð 1,5-2 sm á
lengd og 4-5 mm á breidd, stilkuð, með þverskoru neðan við
miðju. Laufblöðin eru hárlaus, stilkuð, grófsepótt eða flipótt,
lensulaga eða egglensulaga, oft 3-8 sm á lengd. ─
Fjörukálið er einær jurt sem sáir sér út á hverju ári, og getur því
flutzt nokkuð til meðfram ströndinni frá ári til árs. Það vex í stórum
breiðum víða á Suður- og Vesturlandi, en er fágætara norðanlands og
austan. Það er vel ætilegt, með meira kálbragði en nokkur önnur íslensk
villijurt.
Blómstrandi fjörukál í Álftanesfjörum sunnan Reykjavíkur árið 1982.
Hér sjáum við liðaldin fjörukálsins í fjörunni á Hesteyri í Jökulfjörðum 22. júlí 2004.