er mjög sjaldgæf nykra á Íslandi, aðeins fundin í einu vatni, í Berufjarðarvatni við Bjarkarlund. Hún fannst fyrst sumarið 2012 í leiðangri sem Náttúrufræðistofa Kópavogs gerði út til rannsóknar á lífríki vatnsins. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu stofunnar, www.natkop.is, vex hún í breiðum í botni vatnsins á 1,7 m dýpi. Sverðnykran finnst víða í Evrópu, en vestan hafs er náskyld tegund sem nefnd er Potamogeton zosteriformis.
Sverðnykran er ólík öllum öðrum íslenskum nykrum, og því auðþekkt frá þeim. Blöðin eru bandlaga, 4-6 mm á breidd og minna helst á blöð mógrafabrúsa í lögun, en eru þéttstæð og standa í tveim röðum eftir stönglinum. Um þriggja til fjögurra sm löng slíðurhimna er við blaðfótinn. Blómin standa mörg saman í axi á stöngulendum, en ekki er vitað til að nykran hafi blómstrað hér á landi.
Stöngulbútur með blöðum af sverðnykru úr Berufjarðarvatni. Slíðurhimnan sést á milli blaðanna.
Nærmynd af blöðum sverðnykrunnar.