er af draumsóleyjarætt og vex einkum á melum og
sendnum jarðvegi, einnig stundum í klettum og fjallsrindum. Melasólin er
algeng um alla Vestfirði og nokkuð víða um Snæfellsnes, Borgarfjörð og
Húna-vatnssýslur. Á þessu svæði finnst hún bæði á láglendi og til
fjalla. Hún er einnig útbreidd á Austfjörðum, en þar mest til fjalla
þótt hún finnist stundum á áreyrum á láglendi eða skriðum neðarlega í
fjöllum. Á Miðnorðurlandi er hún nokkuð víða hátt til fjalla, mest í 600
til 1000 m hæð, en finnst ekki á láglendi. Af melasól eru þrjú
litarafbrigði í landinu, gult, hvítt og bleikt. Það gula er
algengast en það bleika og hvíta nefnist Stefánssól sem er mjög
sjaldgæf og friðuð.
Melasólin er fjölær jurt með fjórdeildum blómum.
Blómin eru 2,5-3 sm í þvermál, oftast gul, sjaldnar hvít eða bleik.
Krónublöðin eru fjögur, 1,5-2,2 sm löng. Bikarblöðin eru tvö, alsett
dökkbrúnum hárum, 10-15 mm löng og lykja alveg um blómin áður en þau
springa út, en falla strax af við blómgun. Fræflar eru margir, 8-10 mm
langir, frjóhirzlur gular. Melasólin hefur eina,
stóra frævu, alsetta brúnsvörtum, stinnum
hárum, frænið kross- eða stjörnulaga með 4-6 örmum ofan á flötum toppi
frævunnar. Aldinið er um 12 mm langt, rifjað sáldhýði með röð af götum
efst á milli frænisarmanna. Fræin eru nýrlaga, brún, örsmá, um 1 mm á
lengd. Stönglarnir (blómleggirnir) eru þétthærðir, blaðlausir.
Laufblöðin eru stofnstæð, stilkuð, fjaðurflipótt eða sepótt, grófhærð
bæði á efra og neðra borði.
Melasólin er afar breytileg í útliti, og hefur henni verið skipt niður í
fjölmargar deilitegundir á Norðurlöndum, og hafa margar þeirra mjög
þrönga útbreiðslu. Samkvæmt Flora Nordica eru þrjár þessara deilitegunda
á Íslandi: subsp. radicatum, subsp. stefanssonii og
subsp. steindorssonianum. Subsp. radicatum er algeng á
Vestfjörðum, og finnst víða á Snæfellsnesi og á nokkrum stöðum öðrum á
Vesturlandi, en einnig á Norðurlandi, einkum til fjalla. Hún ber gul
blóm og hefur gulan mjólkursafa. Subsp. stefanssonii hefur
fundist á Vestfjörðum og vestan til á Norðurlandi. Hún hefur ýmist hvít
eða rauðbleik blóm, en hvítan mjólkursafa. Subsp. steindorssonianum
vex víða á Austfjörðum frá Njarðvík suður í Öræfi og hefur gulblóm en
hvítan mjólkursafa. Allar þessar deilitegundir eru
samkvæmt Flora Nordica einlendar á Íslandi. Samkvæmt nýrri rannsóknum á
erfðaefni þessara plantna hvílir þessi skipting í deilitegndir á afar
veikum grunni, og því ef til vill réttara að telja alla þessa stofna
bæði á Íslandi, Færeyjum og í Skandinavíu til sömu deilitegundar, subsp.
radicatum.
Melasól uppi á Súlum við Akureyri árið 1963.
Melasól innan um klóelftingu í Fjarðarhornsdal við Kollafjörð 1. ágúst 2006.
Blóm melasólar í návígi í Fjarðarhornsdal 1. ágúst 2006.
Hér sjáum við blóm bleika afbrigðisins af melasól (stefánssól) á Árbæ í Reykhólasveit árið 1992