Glitrós
Rosa dumalis
er afar sjaldgæf,
aðeins fundin í Kvískerjum í Öræfum. Hún vex í
brattri brekku uppi í hlíð innan um birkikjarr. Hún er friðuð
samkvæmt náttúruverndarlögum. Glitrósin fannst lengi vel ekki
blómguð á Íslandi nema þar sem hún var ræktuð í görðum, en nú síðustu
árin hefur hún einnig blómstrað á hinum villta vaxtarstað í Kvískerjum.
Glitrósin fannst fyrst árið 1756 af Eggert Ólafssyni og Bjarna Pálssyni,
en var þá nefnd Þyrnir, og talin vera Berberis. Hún týndist aftur
en endurfannst af Helga Jónssyni árið 1901 (Helgi Jónsson 1906). Ekkert
er hægt að segja um hversu lengi rósin hefur vaxið þarna, né hvenær hún
hafi borizt, enda virðist hún hafa vaxið þarna á litlu svæði án mikilla
breytinga í 250 ár.
Blóm glitrósarinnar eru bleik,
4-6 sm í þvermál, og krónublöðin eru öfughjartalaga,
2-3 sm löng, bikarblöðin um 1,5 sm, oddlöng, útsveigð. Blöðin eru
stakfjöðruð, með tveim til þrem hliðarpörum, smáblöðin hvasstennt,
egglaga eða sporbaugótt, oftast með greinilegum oddi að framan,
2-3,5 sm löng og 1,5-2,5 sm breiða. Axlablöðin eru
löng, samgróin stilknum langt upp eftir (1-1,5 sm).
Stöngullinn ber gisna, sterklega, klóbogna þyrna, greinarnar slúta.