er afar algeng jurt um allt landið frá láglendi og allhátt upp í fjöll, fer hærra en frænka hennar, vallhæran, oft upp í 1000 m hæð. Á nokkrum stöðum hefur hún jafnvel fundizt ofan 1200 m, eða á Hvannadalshnjúk, Steinþórsfelli í Esjufjöllum, og Kirkjufjalli við Hörgárdal. Hún vex í mólendi, þurrum brekkum og á sæmilega grónum melum. Þekkist auðveldlega á hinni hangandi, niðursveigðu og axleitu blómskipan. Hærurnar draga nafn af löngum hárum sem eru á blaðjöðrunum neðan til og við slíðrið.
Blóm axhærunnar eru nokkur saman í allmörgum blómhnoðum sem raða sér í axkennda skipan sem stendur lotin á stráendanum. Blómhlífarblöðin eru sex, dökkbrún eða nær svört, oddmjó. Fræflarnir eru sex, ein þrístrend fræva með þríklofnu fræni. Stofnblöðin eru mjó (1,5-2,5 mm) og rennulaga, hærð á blað-röndunum, einkum neðst við slíðrið.