Flóajurt er að mestu leyti hárlaus með uppsveigða stöngla. Blómin standa þétt saman í stuttum, rauðbleikum klösum út frá blaðöxlunum. Blómhlífin er ýmist fjór- eða fimmdeild, bleikrauð eða nær hvít. Blómin hafa eina frævu með 2-3 stílum, fræflar eru fjórir til átta. Frævan verður við þroskun að svartri eða dökk brúnni, gljáandi hnetu sem er um 2,5-3 mm á lengd. Laufblöðin eru stakstæð, stuttstilkuð, blaðkan lensulega og mjókkar jafnt niður að stilknum, 3-8 sm á lengd og 0,8-3 sm á breidd. Örsmá, aðlæg hár eru meðfram blaðröndinni og á æðastrengjum. Axlablöðin eru ummynduð í himnukennt, randhært slíður utan um blaðfótinn.
Hér sést flóajurt við Þorlákshver í Skálholti sumarið 2003, þar sem hún vex innan um vatnsnafla.
Blómstrandi flóajurt á Laugarási í Biskupstungum 17. júlí 2005.