Bugðupunturinn er meðalstór grastegund með rauðleitum, 10-15 sm löngum punti. Puntgreinar hans eru rauðfjólubláar, bugðóttar. Smáöxin eru tvíblóma. Axagnir eru eintauga, himnukenndar, 5-6 mm langar. Neðri blómögnin hefur langa, knébeygða týtu. Hvít hár eru við grunn blómagnarinnar. Stofnstæðu blöðin eru þráðmjó, fagurgræn. Bugðupunturinn er fremur auðþekktur á hinum rauðleitu öxum og knébeygðri týtu. Hin mjóu blöð hans líkjast túnvingulsblöðum, en þau eru fagurgrænni á litinn en ekki blágræn eins og venjulega er á túnvingli.