Villilaukur er fjölær, graskennd
jurt af liljuætt. Hann vex upp af lauk sem er 10-15 mm í þvermál. Blómin
eru mörg saman í kollleitum sveip á stöngulendanum. Blómleggir eru afar
mislangir og vísa í ýmsar áttir, sumir niður. Tvö reifablöð lykja um
unga blómskipunina, þau hafa breiðan, himnukenndan, bleikleitan blaðfót
og langan þráðlaga, graskenndan odd. Blómhlífin er hvítleit eða
himnukennd með græn-leitum, bleikum eða brúnleitum blæ; hún umlykur
fræfla og frævu sem sjaldan myndar aldini. Fjólubláleitir
laukknappar vaxa upp á milli blómanna. Blöðin eru graskennd, 14-30 sm
löng og 2-5 mm breið, hálfsívöl eða grópuð, oft flöt í oddinn.
Breiða af villilauk á Bæ í Borgarfirði seint í júní sumarið 2003.
Villilaukur í nærsýn frá sama stað.
Haustmynd af villilauk með þroskuðum laukknöppum á milli legglangra blómanna. Tekin á Bæ í Borgarfirði 30. ág. 2004