Lónasóley er einær vatnajurt, sem venjulega vex
á kafi en blómstrar hvítum blómum í yfirborðinu. Stöku sinnum finnst hún
í rakri leirefju þar sem vatnið hefur fjarað út. Blómin eru fimmdeild,
8-12 mm í þvermál. Krónublöðin eru öfugegglaga, hvít að framan en gul
neðst að innanverðu, 7-8 mm löng. Bikarblöðin eru miklu styttri, 3-4 mm,
sporöskjulaga eða oddbaugótt með mjóum himnufaldi. Fræflar eru fjórir
til tólf, með hvítum, 1 mm löngum frjóhirzlum. Frævur eru um 10-20
talsins, gishærðar, hver með einum stíl, verða að 1,5-2 mm löngum hnetum
með stuttri trjónu við þroskun. Blöðin eru marggreind tálknblöð með
örmjóum, striklaga flipum, blaðfóturinn myndar opið, himnukennt, gishært
slíður.
Lónasóley er auðþekkt þegar hún er
blómstrandi, eina íslenska tegundin með hvít blóm fljótandi í
vatnsyfirborðinu. Fyrir blómgun geta hin kaflægu tálknblöð líkst
tálknblöðum síkja- eða vatnamarans, en þeir hafa þó báðir fjaðurskipt
tálknblöð en tálknblöð lónasóleyjar eru gaffalgreind.
Lónasóley í polli vestur á Barðaströnd árið 1985.
Nærmynd af blómum lónasóleyjar í Árbæ í Reykhólasveit 19. júlí 2008.