Fjallabláklukka
Campanula uniflora
er ein af fágætustu
gersemum Íslands. Hún vex aðeins hátt uppi á fjöllum, og
ekki á hvaða fjalli sem er. Til skamms tíma var hún aðeins
þekkt á nokkrum fjöllum beggja megin Eyjafjarðar, Skagafjarðarmegin á
Tröllaskaga, og á Vatnsdalsfjalli í Húnavatnssýslu, þar til Kristín
Aðalsteinsdóttir frá Skjaldfönn kom upp um fyrsta fundarstað hennar á
Vestfjörðum. Hún líkist ofurlítið bláklukku, en er smávaxnari og
hefur minni, grennri og dökkblárri klukku. Fjallabláklukkan vex oftast í
frá 600 til 900 m hæð, hæst skráð á Kirkjufjalli við Hörgárdal í 1070 m
og lægst í Skjaldfannarfjalli við Kaldalón í um 350 m hæð.
Króna fjallabláklukkunnar er
dökkblá, klukkulaga, töluvert minni en á bláklukku og hlutfallslega
þrengri, 1,5-1,8 sm á lengd. Bikarinn er loðinn,
skarpstrendur, 1-1,2 sm á lengd, klofinn þriðjung niður,
svarblár eða svartur, fliparnir oddmjóir. Fræflar eru fimm, frænin þrjú.
Blöðin eru hárlaus, þau neðstu stilkuð, öfugegglaga eða
langspor-baugótt, en ofar á stönglinum eru þau stilklaus, lensulaga eða
nær striklaga.
Fjallabláklukka uppi á
Draflastaðafjalli við Fnjóskadal 3. júlí 1984
Önnur fjallabláklukka á
sama stað sumarið 2002.