Sifjarsóley er meðalstór, fjölær og
nær hárlaus jurt. Blómin eru fimmdeild, 1,5-2,5 sm í þvermál.
Krónublöðin eru gljáandi, gul, litlu lengri en bikarblöðin og stundum
vanþroska, ávöl fyrir endann. Bikarblöðin eru bleikmóleit, 5-7 mm á
lengd, lítið eitt loðin á neðra borði. Margir fræflar eru í blóminu með
2 mm löngum, gulum frjóhirzlum, einnig margar frævur sem hver um sig
verða að 2-3 mm löngum, einfræja hnetum. Frævurnar og hneturnar eru
greinilega hærðar og með krókboginni trjónu. Stönglarnir eru grannir,
nánast hárlausir, blöðin stakstæð, hárlaus fyrir utan örstutt randhár,
afar margvísleg að lögun. Stofnblöðin eru langstilkuð, nýrlaga, ýmist
tennt, sepótt eða 3-7 flipótt að framan, fliparnir oftast tenntir eða
sepóttir, efri stofnblöðin minna oft á blöð brennisóleyjar.
Stöngulblöðin, einkum þau efri eru skipt niður í gegn í 5-7 heilrenda,
striklaga flipa.
Sifjarsóley er afar breytileg
tegund, í raun safntegund margra smátegunda sem æxlast með geldæxlun án
undanfarandi frjóvgunar. Þessar smátegundir hafa verið ítarlega
rannsakaðar í Skandinavíu þar sem sifjarsóley hefur verið skipt niður í
rúmlega 600 smátegundir eða afbrigði. Það er einkum gerð laufblaðanna
og blómbotnsins sem sýna mikinn breytileika og eru notuð til að aðgreina
smátegundirnar. Auðvelt er að rugla sifjarsóley saman við brennisóley,
enda eru blómin fljótt á litið lík. Auðveldast er að þekkja
sifjarsóleyna á breytileika laufblaðanna, nýrlaga stofnblöðum og hinum
striklaga efri stöngul-blöðum. Blómkrónan hefur oft minni, stundum
vanþroskuð krónublöð, og frævurnar og síðar aldinin eru greinilega hærð.
Stofnblöð sifjarsóleyjar gægjast upp úr grjótskriðu í suðurhlíðum Torfnafjalls við Siglufjarðarskarð 19. og 20. júní 2007.
Hér sjást bæði stofnblöð og stöngublöð sifjarsóleyjar í hlíð Kerlingarfjalls við Njarðvík eystra 10. júlí 2008. Krónublöðin eru fallin af blóminu.
Blóm sifjarsóleyjar stendur hér upp úr grjótskriðu í hlíðum Kerlingarfjalls við Njarðvík eystra.