Holurtin er fjölær, hárlaus jurt
með marga stöngla ofan á gildri og sterkri stólparót. Blómin eru
fimmdeild, fá saman eða einstök á stöngulendunum. Krónan er hvít, um 2
sm í þvermál. Krónublöðin eru nagllöng, um 1,5-2,5 sm á lengd með
skerðingu í oddinn. Bikarinn er samblaða, klukkulaga og útbelgdur,
bleikfjólublár með dökku æðaneti, fimmtenntur, 1,5 til 2 sm á lengd.
Fræflar eru 10 með 2 mm löngum, dökkum frjóhirzlum. Frævan er ein með fjórum
til sex stílum. Aldinið er egglaga eða nær hnöttótt hýði á botni
bikarsins og innilokað af honum, 0,7-1sm á lengd, klofnar við þroskun í
4-6 renninga í toppinn. Fræin eru nokkuð stór, um 2 mm á lengd, nýrlaga,
göddótt. Stönglarnir eru grannir, gáraðir. Laufblöðin eru gagnstæð,
heilrend, lensulaga eða mjóoddbaugótt, ydd, 1-3 sm á lengd.
Holurtin er auðþekkt frá öllum
öðrum íslenzkum jurtum, meðal annars á hinum sérkennilega, uppblásna
bikar (flugnabú). Hún líkist hins vegar garðaholurt (Silene vulgaris),
sem ræktuð er í görðum og slæðist stöku sinnum þaðan. Garðaholurtin er
hávaxnari og upprétt og ber miklu fleiri blóm. Stoðblöð efri blómanna
eru þunn og himnukennd, en öll stoðblöð blóma holurtarinnar eru græn.
Holurt í sandi við Syðri-Ófæru við Eldgjá árið 1963.
Holurt á mel við Garðsá í Kaupangssveit árið 1981