Grástör
Carex flacca
er nokkuð algeng á
ákveðnum svæðum á Suður- og Suðvesturlandi, einnig norðan til á
Austfjörðum, en ófundin annars staðar. Hún vex einkum í grasi
grónum hlíðum og mólendisbrekkum. Flestir fundar-staðir grástarar eru
neðan 200 m hæðar, hæst er hún skráð á Barkarstöðum í Fljótshlíð og í
Þórsmörk í 240-250 m hæð. Erlendis eru aðalheimkynni grástarar í
sunnanverðri Evrópu.
Grástörin hefur eitt eða tvö
toppstæð karlöx, tvö til fjögur kvenöx, þau neðri á hárfínum leggjum,
2-3 sm löng. Axhlífar eru dökkgrábrúnar, oft með grænleitri
miðtaug. Hulstrin eru græn eða dökkgrábrún, fínbroddótt, oft mislit, með
svartri trjónu. Frænin eru þrjú. Stráin eru þrístrend. Blöðin eru
áberandi blágræn, flöt með niðurorpnum röndum, 3-5 mm breið.