Hundasúran er fjölær jurt með einkynja blóm í sérbýli. Blómin eru mörg saman í klasaleitum, samsettum blómskipunum. Blómhlífin er 6-blaða, þrjú þau ytri mjó og odddregin, þrjú þau innri breiðari og ávöl í endann. Blómhlífarblöð karlblóma eru rauðleit, sjaldnar fölgræn, blómhlífarblöð kvenblóma eru dökkrauð. Sex fræflar eru í karlblómum, frjóhirzlurnar í fyrstu gular en síðar rauðleitar. Ein fræva er í kvenblómum með þrjú, marggreind, hvítleit fræni. Frævan verður við þroskun að einfræja, gulbrúnni hnetu. Laufblöðin eru stakstæð, stilkuð, með allstóru glæru og himnukenndu slíðri umhverfis blaðfótinn. Blaðkan er spjótlaga eða lensulaga, 2-6 sm löng og 2-20 mm breið, heilrend en með útstæðum eyrum neðst.
Hundasúran líkist nokkuð túnsúru,
en þekkist bezt frá henni á lögun laufblaðanna. Þau hafa áberandi
útstæð eyru við blaðfótinn, en blöð túnsúrunnar eru örlaga og vísa eyrun
niður í átt að stilknum.
Hundasúran er afar breytileg
tegund, bæði að því er varðar litninga-mengi og ytra útlit. Innan hennar
eru bæði tví-, fjór- og sexlitna stofnar, laufblöðin eru afar mismunandi
að gerð og blómin mismunandi. Erfitt hefur reynst að finna samræmi milli
útlitseinkenna og litningamengja, og því hafa misvísandi tilraunir verið
gerðar með að skipta tegundinni niður í deilitegundir og afbrigði.
Samkvæmt Norðurlandaflórunni eru þrjár af deilitegundum hennar taldar
útbreiddar hér á landi: Subsp. acetosella, subsp. tenuifolius
(Wallr.) O.Schwarz og subsp. arenicola Y.
Mäkinen ex Elven. Ekki eru alltaf glögg skil á milli þessara
deilitegunda. Sú fyrstnefnda hefur nokkru breiðari blöð en hinar, eyrun
eru einnig hlutfallslega breið og vísa oft á ská niður að stilknum.
Subsp. tenuifolius hefur mjög mjó blöð, og eyrun eru afar mjó
og vísa gjarnan upp í átt að blaðendanum. Á subsp. arenicola
vantar oft eyru á blöðin.