Hvítstör
Carex bicolor
er fremur sjaldgæf
stör með ljósgræn eða hvítleit öx sem hanga niður, og leggjast alveg
niður á jörðina þegar þau taka að þroskast. Hvítstörin vex
einkum í rökum flögum og flagkenndum hálendismóum, oft í gömlum,
hálfgrónum árfarvegum. Á láglendi finnst hún helzt
meðfram stórum ám á deigum bökkum eða flagkenndum eyrum, sjaldnar í
flagmóum uppi í hlíðum. Hún finnst einkum á hæðarbili frá 300-700 m.
Hæstu fundarstaðir eru við Illviðrahnjúka á Hofsafrétti og við
Kreppu ofan Hvannalinda í 800 m hæð, og í Kiðagilsdrögum í 780 m og við
Hitulaug efri við Marteinsflæðu í um 770 m.
Hvítstörin er algengust á hálendinu norðan Vatnajökuls og Hofsjökuls,
inn til heiða á Norð-austurlandi og meðfram ám sem renna af þessu svæði.
Einnig mikið meðfram og á eyrum jökulánna sem renna í suðaustur
frá Vatnajökli, svo og meðfram Langjökli og Drangajökli.
Annars staðar er hún
sjaldgæf. Erlendis er hún nokkuð dreifð um norðurhjarann,
bæði í Skandinavíu, nyrzt í Rússlandi, Alaska og Kanada.
Hvítstörin ber venjulega tvö til
þrjú bústin öx; stráin grönn og lotin eða liggja á jörðunni. Axhlífarnar
eru dökkbrúnar, snubbóttar, oft með grænni miðtaug. Hulstrin eru
öfugegglaga, snubbótt í toppinn og trjónulaus, hvítgræn eða ljósblágræn,
með hrjúfu yfirborði. Frænin eru tvö. Blöðin eru 1,5-2,5 mm,
flöt eða lítið eitt kjöluð, oft með niðurbeygðum jöðrum.