Tröllakló
Heracleum persicum
er afar stórvaxin
planta af sveipjurtaætt, allmiklu stærri en ætihvönn. Hún er náskyld
bjarnarkló, en þær voru báðar fluttar til landsins á
síðustu öld, og hafa verið nokkuð vinsælar sem skrautjurtir í görðum nú
í seinni tíð. Varast ber þó að rækta þessar tegundir, því þær þroska
auðveldlega fræ og dreifa sér af sjálfsdáðum. Fyrr en varir geta þær
orðið alvarlegt illgresi sem erfitt er að uppræta líkt og
skógarkerfilinn. Þær hafa nú þegar náð að dreifast nokkuð frá ræktun á
nokkrum stöðum. Í Danmörku, Noregi og fleiri nágrannalöndum okkar hafa
menn misst tökin á þessum plöntum með alvarlegum afleiðingum. Báðar eru
eitraðar og getur hörund brunnið undan þeim í sólarljósi, og er því afar
hvimleitt ef þær ná fótfestu á svæðum þar sem börn leika sér.
Tröllaklóin var upphaflega flutt til Akureyrar frá Norður-Noregi á vegum
Lystigarðsins, og hefur verið ræktuð á nokkrum stöðum við Eyjafjörð.
Ekki er með vissu vitað um útbreiðslu hennar á landsvísu, en mest af
þessari ættkvísl á Suðurlandi mun vera tegundin Heracleum
mantegazzianum, eða bjarnarkló. Þessar tegundir eru
mjög líkar, þekkjast helzt í sundur á aldininum, hæringu, og skerðingu blaðanna.
Hæð
tröllaklóar er 1,8 – 2,8 metrar, með lykt sem líkist einna helst anís.
Plantan myndar venjulega fleiri en einn (1-5), holan,
hærðan stöngul, sem er fjólublár neðst en dregur úr lit ofar.
Stöngulhárin eru glær og útstæð, ókrulluð. Blöðin eru margskiptari en
hjá bjarnarkló, allt að 2 metra löng og 80 sm breið. Sagtennur
blaðrandarinnar eru venjulega snubbóttar (ávalar), og endar smáblaðanna
styttri og breiðyddari. Neðra borð blaðsins er venjulega þétt sett
stuttum hárum, en efra borðið er hárlaust. Sveipirnir eru meir eða minna
kúptir, 10-15 sm háir og 30-50 sm breiðir. Aldinin eru aflöng, með
fjórum, dökkum og jafnbreiðum rákum. Tröllakló er þó afar breytileg í
útliti og því getur oft reynst erfitt að aðgreina hana frá bjarnarkló.
Útbreiðslukortið hér að neðan sýnir því sameiginlega útbreiðslu beggja
tegundanna, þar sem ekki hefur alltaf verið greint á milli þeirra.