er algengt um mestan hluta landsins. Það er mjög oft undirgróður í birkiskógunum, en vex líka víða í skjólsælum brekkum og hvömmum og í snjódældum til fjalla. Finnst það alloft upp í 700 m hæð á hálendinu, hæst skráð í 800 m á Snæfellshálsi og í Mávatorfu í Veðurárdalsfjöllum. Blágresið er viðkvæmt fyrir beit og hverfur að mestu úr landi þar sem beitarálag er mikið.
Blóm blágresisins eru fimmdeild, stór, 1,5-2,5 sm í þvermál. Krónan er lausblaða, fjólublá. Bikarblöðin eru græn með breiðum himnufaldi, kirtilhærð, með 2-3 mm löngum broddi í endann. Fræflar eru tíu. Á frævunni er einn stíll með fimmskiptu fræni. Stöngullinn er gáróttur. Stofnblöðin eru á löngum stilk, gishærð, djúpt handskipt, fliparnir margskertir og tenntir. Aldin blágresins er mjög haganlega gert með 5 fræjum. Það myndar langa trjónu sem springur skyndilega upp í 5 ræmur þegar það þroskast. Hver ræma lyftir hluta aldinsins og þeytir fræinu frá sér, og mynda þær í sameiningu eins og fimm arma stjörnu.
Myndin af blágresinu hér að ofan er tekin í Eyjafirði árið 1963.
Nærmynd af blómi blágresisins, tekin í Asparvík á Ströndum árið 1988.
Hér má sjá hin sérkennilegu aldini blágresins sem spretta út í fimm arma stjörnu þegar þau þroskast, og þeyta um leið út fræjunum. Myndin er tekin í Kúalækjargili í Kaupangssveit í ágúst 2004.