Blóm hrafnafífunnar eru í einu,
endastæðu, stuttu axi sem er umlukið nokkrum, dökkbrúnum, himnukenndum
axhlífum, glærum neðan til en dökkbrúnum efst, oddmjóum. Blómin eru með
þrem fræflum. Frjóhirslur eru gular, stuttar (1-2 mm). Frævan hefur
langan stíl og þríklofið fræni. Blómin eru umkringd hvítum hárum í stað
blómhlífar; þau eru stutt í fyrstu en lengjast mikið við
aldinþroskunina, og verða að 2-3 sm löngum svifhárum.
Stöngullinn er sívalur; blöðin mjó (1-2 mm), þykk en grópuð neðan til,
ganga síðan fram í flatan odd.
Hér sjáum við blómstrandi hrafnafífu í Hvannahrauni við Kleifarvatn árið 1981.
Hér er hrafnafífan búin að þroska aldinin, fullbúin svifhárum í fullum skrúða. Tekið í Dufansdal í Arnarfirði 1985.
Hér er sú stærsta hrafnafífubreiða sem ég hef augum litið, í Dufansdal í Arnarfirði árið 1985.
Hér myndar hrafnafífan kraga umhverfis lítinn poll í Loðmundarfirði árið 1992.