Dúnhulstrastörin ber tvö til þrjú fremur þéttstæð kvenöx, og eitt karlax á stráendanum. Stoðblað neðsta axins er oft áberandi, 5-15 mm langt. Axhlífarnar eru ljósmóleitar, miðtaugin stendur fram úr þeim og myndar brodd. Hulstrið er hært, bústið og með trjónu. Frænin eru þrjú. Stráin eru mjög grönn (1 mm), þrístrend efst, hanga niður eða leggjast út af síðsumars. Blöðin eru flöt eða kjöluð með niðurorpnum röndum, 1,5-3,5 mm breið.
Mynd af dúnhulstrastör tekin árið 1985.
Nærmynd af dúnhulstrastör, þrjú kvenöx og eitt karlax í toppinn. Myndin tekin í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi 10. júlí 2011.