Garðabrúða
Valeriana officinalis
er einkum ræktuð í
görðum, og slæðist stundum lítið eitt þaðan. Hún er náskyld
hagabrúðu (Valeriana sambucifolia) sem vex villt
einkum í brekkum mót suðri syðst á landinu. Tegundirnar eru þó mjög
líkar og erfitt að greina þær í sundur. Hagabrúðan á að vera lítið eitt
skriðul, sem garðabrúðan er ekki. Endasmáblað garðabrúðunnar er af
svipaðri stærð og hliðarsmáblöðin, en á hagabrúðunni er það áberandi
stærra. Skiptar skoðanir munu vera um það, hvort hér sé raunverulega um
aðskildar tegundir að ræða. Þær plöntur sem ræktaðar eru í görðum, eru
oft að uppruna til íslenzk hagabrúða sem tekin hefur verið úti í
náttúrunni og flutt í garðana.
Blóm garðabrúða eru af sömu gerð og
hjá hagabrúðu. Blöðin eru gagnstæð, stakfjöðruð, með lensulaga til
egglensulaga, tenntum, loðnum smáblöðum. Stofnblöðin eru langstilkuð,
oftast með 6-8 blaðpörum, endasmáblaðið ekki áberandi
stærra en hliðarsmáblöðin.
Garðabrúða í
Grasgarðinum í Laugardal árið 1986.
Nærmynd af blómum
garðabrúðunnar í Hellisgerði í Hafnarfirði 14. júlí 2009.
Hér sjáum við samsett
laufblað garðabrúðunnar í Hellisgerði Hafnarfirði 14. júlí 2009.