Línstör
Carex brunnescens
er sjaldgæf stör
sem vex í grasbollum og á þurrum grundum. Hún minnir ofurlítið á
blátoppastör, en öxin eru styttri, oftast nær hnöttótt, og þéttstæðari,
og oft fremur ljósbrúnleit en græn. Fundarstaðirnir eru nokkuð
dreifðir um landið, en oftast er mjög lítið af henni í hverjum stað.
Flestir eru þeir frá láglendi upp í 400 m hæð, en hæsti skráði
fundarstaður er í Þjófadölum á Kili í 600 m hæð (Steindór Steindórsson).
Strá línstarar eru grönn, mörg
saman í toppum. Oftast 4-7 lítil, hnöttótt, ljósmóleit öx á grönnum
stráendanum líkt og perlur á bandi. Örfá karlblóm eru neðst í öxunum;
axhlífar himnukenndar með brúnleitum eða dökkgrænum miðstreng. Hulstrin eru gulbrún eða
grænbrún, topplaga, með tenntum, hliðstæðum rifjum og stuttri trjónu.
Tvö fræni. Stráin eru hvassþrístrend og lítið eitt snörp, blöðin flöt,
1,5-2,5 mm breið.
Línstörin er ekki alltaf auðgreind frá blátoppastör. Línstörina má
helzt þekkja á minni og hnöttóttari smáöxum, grennri stönglum, og á því
að hún vex fremur í þurrlendi. Blátoppastörin er fremur í deiglendi og á
vatnsbökkum, myndar þéttari toppa með skástæðum stráum.