Kornsúran er fremur smávaxin jurt
með einu toppstæðu axi sem ber hvít blóm (sjaldnar bleikleit) í efri
hluta, en gulmóleit eða rauð æxlikorn í neðri hluta. Jarðstöngullinn er
stuttur en þykkur og næringarríkur. Einn eða fleiri uppréttir stönglar
rísa upp frá jarðstönglinum. Laufblöðin eru stilkuð, heilrend, dökk græn
og gljáandi á efra borði en ljósgræn að neðan, blaðrendur niðurorpnar.
Blöðin eru nánast hárlaus, stundum þó lítið eitt hærð á neðra borði.
Stofnblöðin eru oft egglaga með þverum grunni, 2-4 sm löng, en
stöngulblöðin eru lensulaga og mjókka jafnt niður að stilknum og geta
orðið 4-10 sm löng og 7-15 mm breið. Blómin eru tvíkynja, blómhlífin
einföld, fimmdeild, blómhlífarblöðin öfugegg-laga eða perulaga, 3-4 mm á
lengd. Himnukennd, móleit stoðblöð eru á milli blómanna. Fræflar eru 6-8
með dökkfjólubláar frjóhirzlur. Frævan er ein, þrístrend, með
þrem löngum
stílum sem standa langt út úr blóminu. Aldin nær sjaldan að þroskast.
Neðst í blómskipaninni eru æxlikorn í öxlum himnukenndra stoðblaða í
stað blóma. Æxlikornin eru perulaga, brún, rauð eða mógræn neðan til með
ljósri trjónu, 3-4,5 mm á lengd. Æxlikornin falla af plöntunni síðsumars
eða á haustin, og skjóta greiðlega rótum og mynda ný blöð. Stundum
myndast ný blöð á æxlikornum áður en þau falla af plöntunni, svo axið
verður blaðgróið.