Blóm rauðberjalyngsins eru 6-7 mm í
þvermál, fjórdeild, drúpandi, hvert á 1-1,5 sm löngum
rauðum legg, með tveim örsmáum forblöðum mishátt á miðjum legg. Krónan
er djúpklofin, fagurrauð, krónuflipar 4-5 mm á lengd, djúpt
aftursveigðir. Bikarinn er grunnskertur, dökkrauður. Fræflarnir eru átta
í knippi, standa út úr blóminu, knappleggirnir eru hærðir, dökkbrúnir,
frjóhirzlur eru aflangar, ljósbrúnar.
Frævan er ein með löngum, rauðum stíl.
Aldinið er rautt ber, 5-7 mm í þvermál, og stendur stíllinn
upp úr því. Blaðsprotar eru jarðlægir, með stakstæðum, gisstæðum,
mjóhjartalaga eða langegglaga, stuttstilkuðum blöðum. Blöðin eru sígræn
með niðurorpnum, örlítið tenntum röndum, 3-4 mm á lengd og
1,5-2 mm á breidd, dökkgræn eða rauðleit á efra borði en
ljósgræn neðan með áberandi miðrifi.
Blómstrað rauðberjalyng í Vindáshlíð við Berufjörð 14. júlí 2005.
Rauðberjalyng með berjum í Breiðdal við Reyðarfjörð 3. sept. 2009