Blóm reyniviðarins eru mörg saman í þéttum, sveiplaga skúfum, yfirsætin, 10-15 mm í þvermál. Krónublöðin eru hvít, ávöl að framan, naglmjó. Bikarblöðin eru örstuttir, þríhyrndir separ. Fræflar eru margir. Frævan er ein, oftast með þrem stílum, stundum fleiri. Blómleggir og bikar eru loðnir. Aldinið líkist rauðu beri. Blöðin eru stakfjöðruð. Smáblöðin eru tennt, oftast lensulaga, langegglaga eða oddbaugótt, 2,5-6 sm á lengd, gishærð. ─ Villtur reyniviður myndar ekki skóga á Íslandi, heldur vex á stangli innan um birkið. Reyniviðartrén eru að jafnaði hærri og standa upp úr birkikjarrinu, og eru því áberandi um blómgunartímann.
Blómstraður reyniviður í garði á Arnarhóli í Kaupangssveit 27. júní 2005.
Þroskuð reyniber í garði á Arnarhóli í Kaupangssveit 12. sept. 2006
Hér sjáum við hvernig reyniviðurinn stendur upp úr villtum birkiskógi, stakar plöntur hér og hvar á stangli. Tekið á Fjöllum í Kelduhverfi 3. júlí 2009.