Trefjasóley er smávaxin, fjölær
votlendis- eða vatnajurt af sóleyjarætt með skriðulum eða fljótandi
stönglum. Blómin eru 6-8 mm í þvermál. Krónublöðin eru þrjú, gul,
öfugegglaga, 1,5-3 mm löng. Bikarblöðin eru álíka löng eða lítið eitt
lengri, egglaga-sporbaugótt, íhvolf, græn eða ljósmóleit. Fræflar eru
oft 8-14, frævur um 15-30 talsins, aldinin nær kringlótt, um 1 mm í
þvermál, með stuttri, boginni trjónu. Stönglarnir og blöðin eru nánast
hárlaus, aðeins blómleggirnir gishærðir. Blöðin eru stilkuð, djúpskert
að framan með V-laga skorum og þrem til fimm ávölum bleðlum.
Blómstrandi trefjasóley í nágrenni Reykjavíkur árið 1982.
Flotblöð trefjasóleyjar innan við Hrafnagil í Þorvaldsdal, Eyjafirði.