er gamall, innfluttur slæðingur, sem einkum óx á öskuhaugum gömlu bæjanna eða í hlaðvarpanum. Líklegast er að hún hafi komið til landsins með landnámsmönnum. Hún vex einnig oft í sand- eða malarbornum fjörum, og bendir það til að hún dreifist að einhverju leyti með sjónum. Ekki er útilokað að hún hafi borizt til landsins sjóleiðina fyrir landnám, og þá vaxið eingöngu í fjörum. Í dag sést hún oft í vegköntum og berst þá gjarnan með ofaníburði sem tekinn er í fjörum. Inni í landi berst hún nær eingöngu með byggðinni eða að fjalla- og áningarskálum.
Baldursbráin ber margar körfur sem eru um 3-5 sm í þvermál. Jaðarblómin eru hvít, tungukrónan 3-5 mm á breidd og 1,5 sm á lengd. Hvirfilblómin eru gerð af gulum pípukrónum á kúptum botni. Reifablöðin eru aflöng, græn með dökkbrúnum eða svörtum, himnukenndum jaðri. Stöngullinn og greinarnar eru gáraðar. Blöðin eru fjaðurskipt, með margskiptum smáblöðum og striklaga flipum.
Baldursbrá í fjörunni við Sörlaskjól í Reykjavík, 18. júlí 2011.
Hér sjást körfur baldursbrárinnar á mynd sem tekin var við Tirðilmýri á Snæfjallaströnd 20. júlí 2004.
Þessi mynd sýnir algenga vansköpun baldursbrár, sem orsakar flata stöngla og teygðar blómkörfur