Lækjafræhyrna er fremur smávaxin,
fjölær jurt með skriðula stöngla og uppsveigðar greinar. Stönglarnir eru
með kirtilhærðri rák eftir endilöngu, annars hárlausir. Blómin eru
fimmdeild, 7-10 mm í þvermál, oftast 2-4 saman á greinendanum.
Krónublöðin eru hvít, hálfgegnsæ, 7-9 mm löng, með skoru í endann.
Bikarblöðin eru töluvert styttri, um 5 mm, móleit og himnurend, ekki
oddhvöss, oftast ofurlítið kirtilhærð. Fræflar eru tíu með gular
frjóhirzlur. Ein fræva, oftast með 3-4 stílum. Aldinið er um 8-10 mm
langt tannhýði sem opnast með 6 tönnum. Blöðin eru gagnstæð, hárlaus,
aflöng eða lensulaga, 8-12 mm löng og 2-3 mm beið, blaðpörin oftast bæði
beygð út til sömu hliðar.
Lækjafræhyrnan er fremur auðþekkt,
líkist helzt músareyra eða vegarfa. Hana má greina frá þeim báðum á
aðeins 3-4 stílum á frævunni, aðeins 6 tönnum á aldininu, og á hinum
hliðsveigðu laufblöðum.
Hér er lækjafræhyrna við Meingilsfossa í Lónsöræfum árið 1985.
Lækjafræhyrna við Fannhólahrygg á Skaga 25. júní 2010. Grasvíðiblöð fylla upp í myndina, og langkrækil má geina hægra megin neðan við miðja mynd.