Munkahetta er allstór, fjölær jurt
með stór blóm sem standa allmörg saman í kvíslskúfum á stöngulendanum.
Blómin eru fimmdeild, um 1,5-2 sm á lengd. Krónublöðin eru bleikrauð,
nagllöng, djúpt klofin í fjóra flipa. Bikarinn er bjöllulaga, nokkuð
útbelgdur, græn- eða rauðleitur, 0,7-1 sm á lengd með 10 upphleyptum,
dökkum taugum, klofinn um fjórðung niður í fimm þríhyrnda sepa, nánast
hárlaus fyrir utan þétta hárrák á röndum bikarsepanna. Fræflar eru tíu
með brúnar, aflangar frjóhirzlur. Ein fræva með fimm stílum, verður að
um 8-12 mm löngu hýðisaldini sem klofnar í fimm ræmur í toppinn.
Stöngullinn er allgildur, djúpt gáraður, lítið eitt hærður, einkum
blómleggirnir. Blöðin eru gagnstæð, lensulaga og odddregin, 2-7 sm löng
og 5-10 mm breið, lítið hærð nema við blaðfótinn.