Fjallhæra
Luzula confusa
er náskyld boghæru,
og vex aðeins til fjalla eins og hún. Hún er þó mun sjaldgæfari, og er
útbreiðsla hennar ekki vel kunn, þar sem þessar tegundir hafa ekki
alltaf verið aðgreindar. Hún þekkist einkum frá boghæru á því, að
blómhnoðun eru fá, oft eitt eða tvö, stundum lítið eitt fleiri. Ekki
verða þær þó alltaf aðgreindar svo öruggt sé, þar sem breytileiki þeirra
skarast nokkuð.
Blóm fjallhærunnar standa mörg
saman í 1-3 þéttblóma blómhnoðum, oftast einu leggstuttu og 1-2
legglöngum. Blómhlífarblöðin eru sex, dökkbrún, himnurend, hvassydd.
Fræflar eru sex. Frævan er með einum stíl og þríklofnu fræni. Stráið er
sívalt, stinnt og upprétt. Stoðblaðið er stutt, 5-10 mm. Stofnblöðin eru
rennulaga, 1-3 mm breið, oftast með löng, hvít randhár við
blaðfótinn.