Ígulstör
Carex echinata
er sums staðar á
landinu nokkuð algeng, en annars staðar sjaldgæf eða vantar. Hún
vex í mýrlendi, við dý og meðfram lækjum. Hún er einna algengust á
Snæfellsnesi, Vestfjörðum, við utanverðan Eyjafjörð og við ströndina á
Norðausturlandi frá Stöðvarfirði að Langanesi. Annars staðar, og
einkum inn til landsins, er
hún sjaldgæf. Flestir fundarstaðir ígulstarar eru á láglendi upp að 200
m hæð. Hæstu fundarstaðir eru í 300 m í Upsadal á Upsaströnd við
Eyjafjörð (Helgi Hallgrímsson), og í Urðardal við Dyrfjöll. Erlendis vex
ígulstörin austan til í Kanada og í Evrópu austur að Úralfjöllum. Hún er
tvípóla, finnst einnig í Indónesíu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi á
suðurhelmingi jarðar.
Ígulstörin ber þrjú til fjögur
hnöttótt öx með stuttu millibili efst á stráinu. Karlblómin eru neðst í
toppaxinu. Axhlífar eru móbrúnar, himnurendar, oft með grænni miðtaug.
Hulstrið er 3-4 mm langt, móbrúnt eða grænleitt, með
langri, flatri og snarprendri trjónu, klofinni í toppinn. Frænin eru
tvö. Stráin eru sljóþrístrend, gárótt efst. Blöðin eru 1,5-3
mm breið, flöt eða kjöluð, ekki snörp.