Blóðarfinn er lágvaxin, einær jurt með jarðlæga eða uppsveigða, venjulega marggreinda stöngla. Laufblöðin eru stakstæð, öfug-lensulaga, sporbaugótt eða spaðalaga, stuttstilkuð, ávöl fyrir endann eða lítið eitt odddregin, heilrend, hárlaus, einn til þrír sm á lengd og 4-12 mm á breidd. Himnukennt, oft margskert slíður með skýrum æðastrengjum feðmir utan um stöngulinn við blaðfótinn. Blómin eru leggjuð, nokkur saman í blaðöxlunum, fimmdeild. Blómhlífin er einföld, blómhlífarblöðin græn innan til með breiðum, hvítum jaðri, oft rauð eða bleik í endann, 3-4 mm á lengd. Fræflar eru 6-8, ein þrístrend fræva með þrem stílstuttum frænum. Ein þrístrend, dökk brún, gljáandi hneta myndast í hverju blómi.
.