er ein af allra minnstu blómplöntum landsins. Hún hefur striklaga, þykk og safarík blöð. Blómin hvít eða bleikleit, örsmá á milli tveggja gagnstæðra blaða. Hvert blóm myndar 4, allstór fræ. Vatnsögnin hefur aðeins fundizt á Suðurlandi og vex eingöngu við jarðhita. Hún er friðuð samkvæmt náttúruverndarlögum.
Vatnsögnin fannst fyrst á Laugarvatni, líklega árið 1902. Stefán Stefánsson segir frá því í grein sem hann birti árið 1919. Sagði hann vera mjög mikið af henni þar. Helgi Jónsson grasafræðingur sá aftur mikið af henni á sama stað árið 1907, en þegar hann koma þar aftur árið 1911 taldi hann hana vera horfna af þessum stað. Þá rann mikið heitt vatn úr hvernum yfir allt svæðið, og hefur það að líkindum riðið henni að fullu, segir Helgi í grein sem hann skrifaði árið 1913. Hún hefur þó náð að jafna sig aftur, því árið 1928 safnaði Thorvald Sörensen vatnsögn á Laugarvatni, og eru þau eintök í grasasafninu í Kaupmannahöfn. Síðari árin hefur hún einnig sést öðru hvoru á hverasvæðinu við Laugarvatn, þótt mikið umrót hafi oft verið þar. Árið 1907 fann Helgi Jónsson einnig mikið af vatnsögn á jarðhitasvæðinu í Laugarási. Árið 1961 fann Bergþór Jóhannsson mosafræðingur vatnsögn á þriðja staðnum, við Þorlákshver í Skálholti innan um vatnsnafla, flóajurt og græðisúru.
Árið 2004 reyndist vera mjög lítið af vatnsögninni við Þorlákshver, og fannst raunar ekkert við hverinn sjálfan, en á litlum bletti meðfram læknum sem rennur frá honum. Á Laugarási var þá mest af vatnsögninni, og þar er hún dreifð yfir nokkuð stórt svæði. Töluvert var einnig af henni á Laugarvatni, en á fremur litlu svæði.
Engin leið er að geta sér til um aldur vatnsagnarinnar í landinu eftir þessum fundarstöðum. Hún getur jafnt hafa vaxið við jarðhitann frá því löngu fyrir landnám, eða hafa borizt af manna völdum á síðari öldum. Hún getur verið mjög fljót að ná þeirri útbreiðslu sem hún hefur á þessum stöðum, og af þeim heimildum sem til eru um hana virðist ljóst að miklar sveiflur eru á magni hennar frá einum tíma til annars. Þrátt fyrir rask sem oft verður á þessum jarðhitasvæðum, virðist hún þó oftast komast af og geta komið upp nýjum stofni.
Nærmynd af vatnsögn með blómum og aldinum, tekin á Laugarási í Biskupstungum 15. júlí 2009.
Vatnsögn á Laugarási í Biskupstungum 17. júlí 2005.
Vatnsögn á Laugarási.