Bláberjalyng
Vaccinium uliginosum
er mjög algengt um
allt land frá láglendi upp í 800 m hæð. Það vex í lyngmóum, á
mýraþúfum og í fjallshlíðum. Hæst hefur það verið skráð í 900 m í
fjallshlíðum við Skriðudal í Hörgárdal. Berin eru mikið nýtt til
manneldis. Þau eru harðgerðari en aðalbláber, en tæplega eins bragðgóð.
Blóm bláberjalyngsins eru fimmdeild, krónan krukku- eða bjöllulaga með
fimm grunnum skerðingum. Hún er hvít, bleik eða rauð, oft nokkuð
flekkótt, um 4 mm breið og 5 mm á lengd. Bikarinn er grunnur, grænn eða
bláleitur með rauðleitum, ávölum, aðfelldum flipum. Fræflarnir eru tíu,
frjóhirzlurnar með tveim þráðmjóum, uppsveigðum hornum eins og oft er á
lyngættinni. Frævan er ein með einum stíl. Aldinið er blátt, döggvað,
9-12 mm í þvermál. Greinarnar eru sívalar, brúnar, með stakstæðum,
öfugegglaga blöðum. Blöðin eru oftast ávöl fyrir endann, eða lítið eitt
odddregin, 10-18 mm á lengd og 6-12 mm á breidd, heilrend með lítið eitt
niðurorpnum röndum, netstrengjótt.
Frá
aðalbláberjalyngi þekkist bláberjalyngið
bezt á ótenntum blöðum sem eru ávöl fyrir endann.
Myndin af blómum
bláberjalyngs er tekin í Asparvík á Ströndum 24. júlí 1988
Myndin af þroskuðum
bláberjum er tekin á Jafnaskarði í Borgarfirði 11. sept. árið 1987
Hér sjást óþroskuð bláber, grænjaxlar. Myndin
er tekin í Leifsstaðabrúnum í Kaupangssveit 5. ágúst 2005.