Lágarfi
Stellaria humifusa
er algengur kringum
landið á sjávarfitjum, og vex hvergi nema við sjó. Hann
fyrirfinnst einnig uppi á klöppum eða bjargi þar sem sjór gengur yfir í
stormum. Hæst yfir sjó er vitað um hann uppi á Fonti á
Langanesi í um 50 m hæð. Lágarfinn finnst allvíða meðfram ströndum
landsins, nema ófundinn á Suðurlandi frá Reykjanesskaga austur undir
Skeiðarársand. Lágarfinn líkist nokkuð stjörnuarfa,
enda náskyldur honum. Lágarfinn er allur þéttvaxnari með styttri
stöngla, blöðin hlutfallslega stutt og breið, bikarblöðin ekki eins
oddhvöss og á stjörnuarfa, og fullþroskað aldin styttra, svipað á lengd
og bikarinn.
Lágarfinn er hárlaus, fjölær,
lágvaxin jurt með stuttum, jarðlægum eða uppsveigðum stönglum. Blómin
eru 8-12 mm í þvermál, fimmdeild, tvíkynja. Krónublöðin eru hvít, klofin
nærri niður í gegn, svo þau virðast 10. Bikarblöðin eru egglaga til
lensulaga, oft íhvolf, snubbótt í endann eða með sljóum oddi, 3-4,5 mm á
lengd. Fræflar eru tíu, ein fræva með þrem stílum. Stönglar eru hárlausir
með tiltölulega þéttum, gagn-stæðum blöðum. Blöðin eru fremur þykk og
safarík, oddbaugótt, 4-7 mm á lengd og 2-3 mm á breidd, óstilkuð.