Flæðarbúi er smávaxin ein- eða
tvíær jurt með afar þykkum og safaríkum blöðum. Blómin eru fimmdeild,
krónublöðin hvít eða bleikleit, langegglaga eða lensulaga, fremur
oddmjó, styttri en bikarblöðin. Bikarblöðin eru græn, himnurend, aflöng,
4-5 mm á lengd. Fræflar eru fimm með gulum frjóhirzlum, ein fræva með
þrjú fræni. Aldinið er lengra en bikarinn,
klofnar í þrennt við þroskun. Fræin eru mörg saman, flatvaxin, brún,
0,5-0.8 mm í þvermál, stundum vængjuð. Blöðin eru gagnstæð, þykk,
striklaga, 10-20 sm löng. Axlablöðin eru glær, himnukennd. Plantan er að
mestu hárlaus, aðeins stöngullinn oft lítið eitt hærður ofan til.
Flæðarbúinn er aðeins þekktur frá
þrem stöðum á landinu. Hann fannst fyrst árið 1942 bæði í Efri-Langey og
Purkey á Breiðafirði (Ingólfur Davíðsson 1942 og
1943). Ingólfur telur hana vaxa á nokkrum stöðum við víkur og voga í
báðum þessum eyjum. Árið 1944 fann hann þessa tegund einnig á
Langeyjarnesi á Fellsströnd (Ingólfur Davíðsson 1947). Árið 1966 mun Jón
Rögnvaldsson hafa tekið sýni af flæðarbúa á sama stað til ræktunar í
grasasafni Lystigarðsins á Akureyri.