Ólafssúran er meðalstór, fjölær,
hárlaus jurt með upprétta stöngla. Blómin eru í samsettum, klasakenndum
blómskipunum á stöngul-endunum, fjórdeild, tvíkynja, með einfaldri
blómhlíf. Blómhlífarblöðin eru græn, spaðalaga eða nær kringlótt,
misstór, 1-2 mm á lengd. Fræflar eru 6 með gulum eða rauðbleikum
frjóhirzlum. Ein fræva með tveim, margskiptum, rauðum frænum. Aldinið er
hneta með breiðum vængjum sem standa langt úr úr blóminu, með vængjunum
um 4-5 mm á hvern kant. Aldinvængirnir eru rauðfjólubláir utan til með
skarði í toppinn á milli frænanna, og ljá þeir blómskipuninni rauðan lit
auk þess græna. Laufblöðin eru stilklöng, blaðkan þykk, nýrlaga, oft
lítið eitt hyrnd, handstrengjótt, 2-6 sm í þvermál, súr á bragðið. Flest
blöðin eru stofnstæð, með brúnt, himnukennt slíður við blaðfótinn.
Hér sést ólafssúra vaxa upp úr breiðu af vikurbreyskju (öræfaosti) við Tungnahryggsjökul á Tröllaskaga árið 1987.
Ólafssúra í vegkanti á Bláfjallavegi við Lönguhlíðarhorn.