Lambagrasþúfurnar eru alsettar blaðsprotum og leggstuttum blómum um blómgunartímann. Blómin eru um 8-10 mm í þvermál og álíka löng. Krónublöðin eru bleik, nagllöng og frambreið með skoru eða bug í endann. Bikarinn er krukkulaga, 5-7,5 mm á lengd, grunnskertur með fimm sljóum tönnum, rauður í endann, en ljósari og oft grænn neðan til, hárlaus nema með randhárum í vikunum milli bikartannanna. Fræflar eru tíu, ein fræva með þremur stílum. Aldinið er aflangt, sívalt hýði um 7-10 mm langt, með útstæðum tönnum, stendur út úr bikarnum. Fræin eru dökkgráleit eða svört, nýrlaga eða kringluleit, um 1 mm í þvermál. Laufblöðin eru í þéttum hvirfingum, striklaga, venjulega 3-8 mm á lengd, í skugga oft miklu lengri eða allt að 15 mm, 1-2 mm á breidd, broddydd, með örsmáum tannhárum á röndunum. Stönglarnir eru marggreindir, neðan til oft þaktir leifum af gömlum blaðhvirfingum fyrri ára.
Dæmigerð lambagrasþúfa á Svalbarði í Þistilfirði árið 1968. Sólarmegin eru blómin útsprungin, en eru á eftir skuggamegin.
Lambagras í návígi í nágrenni Reykjavíkur vorið 1982