eða birki er algengasta skógartréð á Íslandi. Áður fyrr var það útbreitt um allt láglendi landsins og myndaði víða samfellda skóga. Víða nær birkið í dag upp í 400-500 m hæð í hlíðum, en á nokkrum stöðum finnst það í um 550 m eða ríflega það, t.d. í Stórahvammi efst í Austurdal, í Fljótsgili við Skjálfandafljót og í Hlíðarfjalli og Jörundi við Mývatn. Nýlega voru útbreiðslumörk þess í Austurdal könnuð betur en áður var gert, og var þá talið að það næði yfir 600 m þar sem hæst er, og í Útigangshöfða í Goðalandi fannst nýlega ein hrísla töluvert fyrir ofan 600 m. Frá þessu er sagt á vefsíðu Skógræktarinnar, www.skogur.is. Þar sem stormasamt er og mikið úthafsloftslag myndar birkið kjarr sem oft er aðeins 2-3 m hátt, en lengra inn til landsins þar sem loftslag er landrænna verður skógurinn hávaxnari, oft 5-10 m á láglendi. Efst til hægri er mynd af birkigrein með uppréttum, rauðfræna kvenreklum. Karlreklarnir eru ljósari á litinn og hanga niður.
Blóm birkisins eru einkynja og standa mörg saman í reklum. Kvenreklarnir eru uppréttir í fyrstu, um 2 sm á lengd. Framan við blómin standa rekilhlífar sem eru þrísepóttar í endann. Blómin standa þrjú saman, hvert með einni frævu og tveim stílum. Aldinið er örsmá, vængjuð hneta. Karlreklarnir eru lengri en kvenreklarnir, og hanga oftast niður. Karlblómin hafa tvo klofna fræfla. Laufblöðin eru gróftennt, egglaga, fjaðurstrengjótt, en odddregin, 2-4,5 sm löng og nokkuð stilklöng, bæði blöð og greinendar loðin. Börkurinn á birkibolunum er afar breytilegur á litinn, getur verið brúnn eða nær hvítur eins og sést á myndum hér til hægri, eða rauðleitur eins og á myndinni hér að neðan. Eftir því sem börkurinn vex, flysjast hann af í þynnum sem nefnast næfrar.
Hér fyrir ofan sést mynd af birkigrein með blómstrandi kvenreklum. Rauði liturinn stafar af frænunum.
Þessi mynd sýnir einn karlrekil úti á enda greinar, en nokkrir kvenreklar sjást lengra til hægri. Báðar myndirnar hér að ofan eru teknar á Arnarhóli í Kaupangssveit árið 1963.
Hér má sjá birkiboli með brúnum berki, en á myndinni fyrir neðan er bolur með hvítum berki. Báðar eru teknar í Leifsstaðabrúnum í Kaupangssveit.