Grávorblómið er fjölær jurt með uppréttan stöngul og fjórdeild blóm sem eru um 3-5 mm í þvermál, mörg saman í stuttum klasa á stöngulendanum. Krónublöðin eru hvít, naglmjó, breiðari og ofurlítið buguð í endann, um 3-5 mm á lengd. Bikarblöðin eru sporbaugótt eða egglaga, græn, gulgræn eða ofurlítið fjólubláleit, himnurend, 2-2,5 mm löng. Fræflar eru sex með hvítleitum frjóhnappi. Ein aflöng fræva í miðju blóminu með frænisknappi á endanum. Hún verður síðan að flötum, mjóoddbaugóttum skálpi sem er 6-13 mm langur og 2-3 mm breiður, hærður á báðum hliðum með einföldum og kvíslgreindum hárum. Stöngullinn er kafloðinn, venjulega þétt settur loðnum, oddbaugóttum eða lensulaga, stilklausum, gróftenntum laufblöðum sem eru 8-20 mm löng. Stofnblöðin eru í þéttri og reglulegri hvirfingu neðst, heldur mjórri en stöngulblöðin.