Línarfi
Stellaria borealis
er afar sjaldgæf
tegund á Íslandi, af hjartagrasætt. Hann er bæði friðaður og á válista.
Hann hefur mjög granna, greinótta stöngla, og styður sig ætíð við þær
plöntur sem vaxa í nágrenni við hann. Blómin eru afar smá, fimmdeild,
oft eingöngu með bikarblöðum. Krónuna vantar oftast, eða er mjög
ófullkomin, krónublöðin hvít og mun styttri og mjórri en bikarblöðin.
Laufblöðin eru græn og oddbaugótt, og háblöðin undir blómleggnum eru
græn og randhærð, en ekki glær eins og á
bakkaarfanum sem
líkist honum nokkuð. Aldinin eru í fyrstu græn, síðar rauðbrún, miklu
lengri en bikarinn. Línarfinn vex að jafnaði sem undirgróður í
víðikjarri í deiglendi, eða sjaldnar undir birki eða fjalldrapa. Þar sem
hann þarf stuðning af grasi og öðrum undirgróðri, þrífst hann ekki þar sem
mikil beit sauðfjár eða fugla fjarlægir undirgróðurinn. Stundum finnst
línarfinn úti í hólmum eða eyjum, jafnvel á hálendinu.
Línarfinn er fjölær jurt með
hárlausa, uppsveigða, granna og ferstrenda stöngla. Blómin eru
langleggjuð, stök eða fá saman í efstu blaðöxlum, forblöð blómanna græn
eins og laufblöðin með örfáum randhárum við fótinn. Krónublöðin vantar
oftast, eða eru mjög stutt, bikarblöðin lensulaga, hvassydd, græn og
himnurend, 3-4 mm löng. Línarfinn hefur tíu stutta fræfla, frævan
er með fjórum eða fimm
stílum. Aldinið stendur langt út úr bikarnum við þroskun, í fyrstu
grænleitt en verður fljótt rauðbrúnt á litinn. Fræin eru mörg, dökk
brún, um 1 mm að stærð. Laufblöðin eru lensulaga, 1-3 sm á lengd,
oddmjó, oft með strjálum randhárum við blaðfótinn, annars hárlaus.

Línarfi innan um
hávaxinn gróður í skjóli víðirunna við bakka Mývatns á
Grímsstöðum í Mývatnssveit 28. ágúst 2008.

Hér sjáum við þroskað aldin línaarfans.

Hér sést blóm línarfans í meria návígi.