Viðjan er grannur, uppréttur,
oftast einstofna runni eða tré sem getur náð 8-10 m hæð. Börkurinn á
stofnum og gildari greinum er grábrúnn, á ungum greinum er hann
dökkbrúnn eða rauðbrúnn. Laufblöðin eru oddbaugótt, öfuglensulaga eða
öfugegglaga, oftast 4-7 sm löng og 2-3 sm breið, breiðust framan við
miðju, örlítið fín- eða grunntennt eða alveg heilrend. Blöðin eru nokkuð
jafngræn á efra og neðra borði, fullvaxin blöð að jafnaði hárlaus á efra
borði, en lítið eitt hærð á jöðrum og neðra borði, einkum meðfram
æðunum. Greinar eru hárlausar nema yngstu ársprotar sem eru lítið eitt
hærðir. Axlablöð eru oftast lítið áberandi, stutt og breið. Blómin eru
einkynja í reklum, kvenreklar 3-6 sm langir, en karlreklar styttri.
Rekilhlífar hafa löng, hvít hár, rauðdöggvaðar í miðju og nær svartar í
endann. Frævur kvenblómanna eru ýmist hvítloðnar eða nær hárlausar,
grænar með gulgrænum stíl. Fræflar karlblómanna eru tveir í hverju blómi
með fagurgulum frjóhirzlum. Viðjan blómstrar rétt á undan eða samhliða
laufgun.
Hér sjáum við dæmigert vaxtarlag ungrar viðju sumarið 2003 á Leifsstaðafit í Kaupangssveit.
Kvenreklar viðjunnar í maí 2005 á Arnarhóli í Kaupangssveit.