Ljónslappi
Alchemilla alpina
eða
Ljónslöpp er algeng jurt um allt land frá láglendi upp í um
700-800 m hæð. Hún vex oft í þurru mólendi, einnig myndar hún stundum
þéttar, ávalar þúfur í fokjarðvegi. Ljónslappi er algengur um mest allt
landið, þó strjáll og vantar á köflum á miðhálendinu. Hæstu fundarstaðir eru 930 m í
Reykárbotnum við Bónda í Eyjafirði og 900 m í fjallshlíðinni
ofan við Tjörn í Svarfaðardal og 880 m á Barkárdalsbrúnum við Hörgárdal. Ljónslöppin er náskyld maríustakki og maríuvetti, en blöðin
eru skift með skerðingum alla leið niður að blaðstilk. Blómin eru
eins, ljósgræn og smá.
Blóm ljónslappans eru allmörg saman
í blómhnoðum sem standa í blaðöxlum; þau eru fjórdeild, 2,5-3,5 mm í þvermál. Krónublöð vantar. Bikarblöðin eru gulgræn, fjögur í
kross með hárskúf í oddinn. Örmjóir og stuttir utanbikarflipar standa í
blaðvikunum. Fræflar eru fjórir, ein fræva með einum hliðstæðum stíl.
Blöðin eru stilklöng (5-10 sm), handskipt í 5-7 smáblöð. Smáblöðin
eru 1,5-2 sm á lengd, tennt í endann, þétt silfurhærð á
neðra borði, dökkgræn og lítt eða ekki hærð að ofan. Jarðstöngullinn er
gildvaxinn með himnukenndum, brúnum lágblöðum.