er sjaldgæf tegund
af grasætt, aðeins fundin á nokkru svæði á höfuðborgarsvæðinu og í næsta
nágrenni. Hefur fundizt á tveim stöðum utan höfuðborgarsvæðisins, á
Fagurhólsmýri og utan í Tófuhorni við Hvalnes í Lóni. Hún vex í
mólendishöllum utan í og uppi á ásum. Vaxtarstaðirnir á Suðausturlandi
gætu bent til þess, að blátoppan hafi borizt þangað til landsins með
fuglum, en á höfuðborgarsvæðinu hefur hún án efa vaxið mjög lengi.
Blátoppan hefur átt undir högg að sækja, bæði vegna útþenslu
byggðarinnar og vegna þéttrar lúpínubreiðu sem leggur undir sig
vaxtarsvæði hennar.
Blóm blátoppunnar eru í stuttum (1,5-2 sm),
langegglaga, þéttum, axleitum punti. Smáöxin eru tvíblóma. Axagnirnar
eru 4-5 mm langar, himnukenndar, glærar, með dökkri
broddyddri miðtaug. Neðri blómögnin er breið, fimm til sjötauga,
bláfjólublá ofan til og myndar miðtaugin stuttan, bláan brodd upp úr
smáaxinu. Blaðsprotar eru með alllöngum, 2-4 mm breiðum
blöðum, samanbrotnum að endilöngu. Slíðurhimnan er örstutt.
Myndirnar af
blátoppunni eru báðar teknar á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði árið
1984