Fuglaertur
Lathyrus pratensis
eru fremur
sjaldgæfar og vaxa einkum í ýmis konar valllendi,
túnjöðrum, grasbrekkum, mólendi og í skógarkjarri. Er að jafnaði við
byggð eða nærri ræktuðu landi (Std. Std. 1962 bls. 132). Allir
fundarstaðir eru á láglendi neðan 200 m. Þær eru einna algengastar
á Suðurlandsundirlendi. Þær vaxa að jafnaði á fremur litlum blettum eða
takmörkuðum svæðum, en oft í þéttum breiðum og blómgast ríkulega.
Blóm fuglaertna eru um 1,5 sm á
lengd, einsamhverf, stuttstilkuð, 6-10 saman í einhliða klasa.
Krónublöðin eru gul. Bikarinn er um 1 sm á lengd, klofinn niður til miðs
í 5 mjóa og odddregna flipa, taugarnar hærðar. Fræflar eru 10, ein
fræva. Aldinið er belgur. Stöngullinn er hvassstrendur. Blöðin eru
stakstæð, fjöðruð með aðeins einu fullmynduðu blaðpari, en vafþráðum í
endann sem oft vefjast utan um nærliggjandi plöntur. Smáblöðin eru
lensulaga, hvassydd; tvö skakkörlaga og hvassydd axlablöð eru við
blaðfótinn.
Útbreiðsla
fuglaertnanna gæti bent til þess að þær hafi borizt til landsins eftir
landnám, vegna þess hversu blettótt hún er, fremur en að þær séu
náttúrlegur hluti af ákveðnum gróðurlendum. Þó er engan veginn hægt að
fullyrða neitt um það (Std. Std. 1962). Á seinni árum hefur nokkuð verið
gert í því að auka útbreiðslu þeirra jafnhliða skógrækt, og til að bæta
jarðveginn.