Slíðrastörin er meðalstór stör með
tveim til þrem leggjuðum, uppréttum kvenöxum og einu karlaxi í toppinn.
Axhlífar eru með stuttum oddi, brúnleitar með grænum miðstreng,
himnurendar. Hulstrið er allstórt, 4 mm, grænt, dregst saman í trjónu í
toppinn, oft skakka og hliðbeygða. Þrjú fræni. Stráin eru sljóþrístrend,
gárótt. Blöðin eru breið, 3-5,5 mm, fagurgræn, flöt eða M-laga. Slíður
stoðblaðanna eru löng, 10-20 mm.
Hér sjáum við slíðrastör síðsumars, eftir að aldinin eru tekin að þroskast. Tekið árið 1982.
Hér sjáum við slíðrastör nýblómstraða að vori, en hún blómstrar snemma. Brúnir frjóhnappar standa út úr karlaxinu, en hvítir stílar gægjast út úr kvenöxunum neðar.