Bláklukka
Campanula rotundifolia
er algeng á
austurlandi, en sjaldgæf annars staðar. Hún er mest á láglendi, en fer
þó einnig allhátt upp eftir fjöllum, finnst stundum uppi í 500 m hæð eða
hærra (hæstu fundarstaðir hennar eru Teitutindur í Mjóafirði 1000 m,
Herfell í Loðmundarfirði 900 m, og í suðurhlíðum Háaxlareggja í
Stöðvarfirði í 850 m hæð (Hjörleifur Guttormsson)). Hún vex einkum í
graslendi og móum, en einnig í skóglendi og klettum. Líklegast er að
þessa sérstöku útbreiðslu hennar megi skýra á þann hátt, að hún hafi
snemma komið til Austurlands og náð að leggja það alveg undir sig. Hún
hefur þar mjög samfellda útbreiðslu frá Þistilfirði suður um og vestur
fyrir Skeiðará. Eftir landnám hefur hún fengið nýja möguleika á
fjardreifingu með ferðum manna og hrossa, en hvergi náð samfelldri
útbreiðslu á því svæði.
Bláklukkan ber oftast eitt til
tvö blóm á stöngli, en stundum fleiri. Krónan er klukkulaga, 2-3
sm á lengd, með fimm odddregnum sepum að framan. Bikarinn er
hárlaus, klofinn 2/3 niður, bikarfliparnir striklaga, um eða tæpur sm á
lengd. Fræflar eru fimm og ein fræva með þrjú fræni. Stöngullinn er
blöðóttur, einkum neðan til. Blöðin eru hárlaus, stofnblöðin stilklöng
með hjartalaga eða nær kringlótta blöðku, sljótennt. Ofar verða blöðin
oddbaugótt, síðan lensulaga eða striklaga, þau efstu heilrend.