Túnvingull
Festuca richardsonii
er ein allra
algengasta grastegund landsins. Hún vex í alls konar landi, í
móum, melum, söndum, graslendi, túnum og á mýraþúfum. Hann er afar
harðgerður og þurrkþolinn. Hann er fyrsta grastegundin sem nemur land í
þurrum foksöndum á eftir melgresinu. Hann er algengur frá láglendi upp í
um 1200 m hæð. Íslenski túnvingullinn er af mörgum talinn deilitegund af
rauðvingli (Festuca rubra) og heitir hann þá Festuca rubra
ssp. arctica. Rauðvingull er hins vegar ekki íslensk tegund, en
er mikið innfluttur til sáningar í túnum og til landgræðslu, meðal
annars meðfram nýjum vegum. Túnvingull er að jafnaði smávaxnari en
rauðvingull, hefur oftast loðin smáöx, uppréttan punt, og stráin verða
ekki eins rauð neðan til þegar líður á sumarið.
Puntur túnvinguls er grannur, 3-8
sm langur, oftast grár eða grágrænn. Smáöxin eru stór, 8-12 mm löng,
oftast 5-8 blóma, venjulega loðin. Axagnirnar eru mislangar, 3-6 mm,
oddhvassar. Neðri blómögnin er loðin, 5-tauga, endar í hvössum oddi.
Túnfingullinn myndar skriðular renglur með löngum, grönnum (0,5-1 mm), grópuðum, oft
blágrænum blöðum.