Keldustör
Carex paupercula
er fremur sjaldgæf
á landinu, og vex í blautum flóum sem dúa undan fótum manns. Hún
er einna algengust á Vesturlandi og Vestfjörðum, við utanverðan
Eyjafjörð og utanvert Fljótsdalshérað. Hún virðist því aðhyllast flóa
sem eru á snjóþungum svæðum. Auk þess finnst hún allvíða í Mýra- Snæfellsnes- og Dalasýslu, lítið annars staðar.
Hún vex nær eingöngu á láglendi upp í um 200 m hæð. Hæstu fundarstaðir
eru á Upsadal á Upsaströnd og á Fljótsheiði í um 250 m hæð, og
í Ljótsstaðahalli við Laxárdal í 230 m.
Keldustörin er meðalstór, fagurgræn
stör með tveim til þrem stuttum, hangandi, legglöngum kvenöxum og einu
uppréttu karlaxi. Axhlífar eru dökkbrúnar, langar og oddmjóar; oddurinn
oft boginn og nær langt upp fyrir hulstrið sem er grænt, oft dökkt að
ofan, trjónulaust, hrjúft. Frænin eru þrjú. Stráin eru þrístrend, grönn.
Blöðin eru flöt; neðsta stoðblað axanna nær oftast upp fyrir þau.